Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjöl 1245  —  558. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um olíuflutninga.


     1.      Hefur verið lagt mat á áhrif fækkunar olíubirgðastöðva á magn og eðli olíuflutninga um þjóðvegi landsins og hvaða mat leggur ráðherra á afleiðingar breytinga á olíuflutningum?
    Umhverfisstofnun sem er undirstofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins gefur út starfsleyfi fyrir olíubirgðastöðvar og hefur eftirlit með olíugeymum tengdum starfseminni. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið býr því ekki yfir tölulegum upplýsingum um fækkun eða fjölgun olíubirgðastöðva.
    Um olíuflutninga á vegum gildir reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi, nr. 1077/2010. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að flutningur hættulegs farms á landi fari fram á öruggan hátt.
    Þrjár opinberar stofnanir framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar:
    Hlutverk Samgöngustofu er að viðurkenna og skrá ökutæki sem nota á til flutnings á hættulegum farmi, halda námskeið sem sitja þarf til að öðlast heimild til að flytja hættuleg efni auk þess að viðurkenna öryggisráðgjafa sem flutningsaðilum sem flytja hættuleg efni er skylt að hafa. Hlutverk öryggisráðgjafa er að sjá til þess að farið sé að reglum, veita ráðgjöf, gefa skýrslu auk annarra atriða.
    Vinnueftirlitið hefur yfirumsjón með framkvæmd þeirra atriða reglugerðarinnar sem lúta að flokkun efna, viðurkenningu umbúða auk þeirra prófana og viðurkenningar sem krafist er í alþjóðlegum reglum. Vinnueftirlitið fer einnig með eftirlit með því að fylgt sé reglum um störf öryggisráðgjafa og sér um útgáfu réttindaskírteina.
    Vegaeftirlit lögreglu hefur umsjón með eftirliti á vegum úti með ökutækjum sem flytja hættulegan farm í samræmi við reglur nr. 895/2016, um sérstakt vegaeftirlit lögreglu. Lögreglan setur jafnframt reglur um takmarkanir á flutningi á hættulegum farmi um jarðgöng.                Ekki liggja fyrir tölfræðilegar upplýsingar um flutningana og því ekki nægar forsendur til þess að meta afleiðingar breytinga í flutningi olíu.

     2.      Hvaða aðgerðir hafa komið til framkvæmda eða eru fyrirhugaðar til að bregðast við aukinni áhættu fyrir neysluvatn Íslendinga og viðkvæm vistkerfi, ekki síst í vötnum, straumvötnum og votlendi og við strendur landsins, samfara olíuflutningum?
    Samkvæmt 9. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 119/2018, frá 7. desember 2018 fer umhverfis- og auðlindaráðuneytið með mál sem þessi.

     3.      Telur ráðherra að fara þurfi yfir reglur og jafnvel lagaumgjörð með umbætur í huga til að lágmarka þá áhættu sem auknir olíuflutningar á landi hafa í för með sér, og þá helst hvaða atriði? Ef svo er ekki, hvaða skýringar eru á því?
    Vísað er til svars við 1. lið um þau atriði sem snúa að hlutverki Samgöngustofu um að lágmarka áhættu. Að öðru leyti er vísað til 9. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 119/2018, frá 7. desember 2018 og fer umhverfis- og auðlindaráðuneytið með mál sem þessi.